Hraunsnef er hótel og veitingastaður á virkum sveitabæ. Á sveitabænum erum við með nautgripi, kindur og svín ásamt öndum og hænum. Við höfum undanfarin ár verið að vinna hörðum höndum að því að verða sjálfbær á kjöt og hefur því takmarki að mestu verið náð.
Við urðum fyrst sjálfbær á grísakjötið næst kom nautakjötið og núna sl. ár erum við að nálgast að verða alveg sjálfbær á lambakjöti. Matseðillinn okkar er því ekki alltaf eins og geta komið upp tímabil þar sem eitthvað er einfaldlega ekki til. Við tökum rétti út af matseðlinum þegar þeir eru ekki til. Þannig að þegar þú kaupir þér kjötrétt af matseðlinum okkar sem merktur er með ★ getur þú verið viss um að það komi af frjálsu dýrunum okkar.
Alltaf er hægt að rölta um svæðið og skoða dýrin, það kemur þó fyrir að dýrin hafi skellt sér í göngutúr eitthvað uppá fjall og eru því ekki á staðnum þegar fólk kíkir við, en greiniega er hægt að sjá að dýrin okkar eru aldrei í stíum og hafa fullkomið frelsi til að lifa sínu besta lífi.
Dýrin eru send í sláturhús þar sem farið er eftir öllum reglugerðum varðandi skoðanir og staðfestingar á heilbrigði dýrsins. En okkar dýr fara í sláturhúsið í Borgarnesi þar sem við getum takmarkað kolefnissporið gríðarlega við það senda þau svona stutta vegalengd. Kjötið er svo algerlega unnið hér á bænum.
Við framleiðum einnig matarstell á staðnum. Hægt er að kaupa handgerða diska ofl.